25.5.2012 | 14:22
Tilfinningar í fjárhúsunum
Ég spurði foreldra mínar eftir að hafa eytt helginni með þeim í sauðburði hvort að þau töldu að bændur yrðu smátt og smátt ónæmari fyrir atburðum sem gerast í fjárhúsunum? Það er nefnilega þannig að á hverju vori finn ég meira og meira fyrir því hversu mikið útihúsin í sveitinni eru fljótandi í allskyns ólíkum yfirgnæfandi tilfinningum, í þetta skipti í miðjum sauðburði lá kind í spili ásamt tveimur öðrum og gekk með tvö lömb. Hún var slæm í fótum sem gerði það að verkum að hún gat ekki gengið og heldur ekki staðið upp til að næra sig. Seinna um daginn varð ég vör við það að pabbi náði í lömbin hennar og lét undir aðrar kindur sem höfðu bara borið einu lambi. Vegna veikinda hennar var hún ekki fær um að koma þeim sjálf í heiminn og eins og pabbi sagði réttilega og laust við öll leiðindi þegar hann tók seinna lambið frá henni jæja gamla mín, nú er þínu hlutverki lokið.
Botna jarmaði ört og vildi fá lambið til sín, sneri höfðinu í báðar áttir til að reyna sjá í kringum sig, sjá hvort lömbin hennar væru þarna. Þegar hún sá ekkert þá reyndi hún ákaft að standa upp sem gekk þó ekki, hún vissi að fæturnir virkuðu ekki en þó reyndi hún með öllum sínum kröftum að finna lömbin. Það sem hún vissi ekki á þessari stundu var að hún mundi aldrei fá að sjá lömbin sín og að um það bil klukkutíma síðar yrði hún kominn út í skurð, því Botna mín nú ert þú að moldu komin og að mold skalt þú nú aftur verða. Foreldrar mínir sögðu nei þetta er ekki eitthvað sem maður venst en hinsvegar bætti pabbi því við og sagði Svona er gangur lífsins og mamma sagði það er alltaf jafn sárt að sjá eftir lömbunum á haustin
Það er ekki bara dauðinn og móðurmissirinn sem er staðreynd í fjárhúsunum. Þegar þú gengur um garðana finnur þú fyrir reiði kindanna þegar þær geta ekki fengið að vera í friði með lömbin sín, hræðsla um að einhver ætli að taka þau frá þeim, þær geta orðið ringlaðar þegar það er vanið önnur lömb undir þau og það má sjá þegar þær jafnvel ráðast á lömbin sem þau eiga ekki. Þær geta líka orðið leiðar og sorgmæddar eftir að hafa borið sem lýsir sér svipað og fæðingarþunglyndi sem konur geta fengið, þar sem þær hunsa lömbin og vilja ekki sjá þau eða jafnvel reyna að meiða þau.
Það er sérkennilegt og forvitnilegt að geta fylgst með hversu sínilegar tilfinningar dýranna geta verið, hjá kindum eru engin leyndarmál og engin ástæða til að bæla niður þarfir. Kindur lifa í einfaldri tilveru en eru þó alls ekki svo ólíkar okkur konunum sem mæður. Kindur eru nefnilega næmar og þegar ég fylgist með hvernig þær vernda lömbin sín þá furða ég mig stundum á því hversu ótrúlegt móðureðlið í þeim er í raun og veru. Það er einstaklega skemmtilegt að sjá hegðun þessara dýra, til dæmis þegar óborin kind kemst í færi við nýfætt lamb þá er eins og eitthvað gerist innra með henni. Kindin vil kara lambið með móðurinni, vera í kringum það og getur jafnvel gengið það langt að vilja hreinlega eiga það.
Er þetta að vissu leyti kunnuglegt og hægt að yfirfæra á konur? Í bókstaflegri merkingu nei en oft taka konur upp á því að segja setningar eins og ég bara verð aðeins að prufa um leið og þau taka upp nýfædda barnið sem þeim þykir allt annað en leiðinlegt að halda á. Konur verða líka hræddar ef einhver myndi taka börnin hennar og að mörgu leyti ber ég sem móðir öll sömu grunneinkenni og kind hefur. Það er hreinlega eitthvað stórkostlegt við það að geta fylgst með og tekið þátt í sauðburði á vorin. Þó að þetta sé tuttugasta og sjöunda árið sem ég tek þátt í sauðburð þá læri ég alltaf eitthvað nýtt um hvernig kindunum líður á vortímanum, eitthvað sem er ómissanlegt og mjög svo lærdómsríkt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.