Tilfinningar í fjárhúsunum

Ég spurði foreldra mínar eftir að hafa eytt helginni með þeim í sauðburði hvort að þau töldu að bændur yrðu smátt og smátt ónæmari fyrir atburðum sem gerast í fjárhúsunum? Það er nefnilega þannig að á hverju vori finn ég meira og meira fyrir því hversu mikið útihúsin í sveitinni eru fljótandi í allskyns ólíkum yfirgnæfandi tilfinningum, í þetta skipti í miðjum sauðburði lá kind í spili ásamt tveimur öðrum og gekk með tvö lömb. Hún var slæm í fótum sem gerði það að verkum að hún gat ekki gengið og heldur ekki staðið upp til að næra sig. Seinna um daginn varð ég vör við það að pabbi náði í lömbin hennar og lét undir aðrar kindur sem höfðu bara borið einu lambi. Vegna veikinda hennar var hún ekki fær um að koma þeim sjálf í heiminn og eins og pabbi sagði réttilega og laust við öll leiðindi þegar hann tók seinna lambið frá henni „jæja gamla mín, nú er þínu hlutverki lokið“.

Botna jarmaði ört og vildi fá lambið til sín, sneri höfðinu í báðar áttir til að reyna sjá í kringum sig, sjá hvort lömbin hennar væru þarna. Þegar hún sá ekkert þá reyndi hún ákaft að standa upp sem gekk þó ekki, hún vissi að fæturnir virkuðu ekki en þó reyndi hún með öllum sínum kröftum að finna lömbin. Það sem hún vissi ekki á þessari stundu var að hún mundi aldrei fá að sjá lömbin sín og að um það bil klukkutíma síðar yrði hún kominn út í skurð, því Botna mín nú ert þú að moldu komin og að mold skalt þú nú aftur verða. Foreldrar mínir sögðu nei þetta er ekki eitthvað sem maður venst en hinsvegar bætti pabbi því við og sagði „Svona er gangur lífsins“ og mamma sagði „ það er alltaf jafn sárt að sjá eftir lömbunum á haustin“

 

Það er ekki bara dauðinn og móðurmissirinn sem er staðreynd í fjárhúsunum. Þegar þú gengur um garðana finnur þú fyrir reiði kindanna þegar þær geta ekki fengið að vera í friði með lömbin sín, hræðsla um að einhver ætli að taka þau frá þeim, þær geta orðið ringlaðar þegar það er vanið önnur lömb undir þau og það má sjá þegar þær jafnvel ráðast á lömbin sem þau eiga ekki. Þær geta líka orðið leiðar og sorgmæddar eftir að hafa borið sem lýsir sér svipað og fæðingarþunglyndi sem konur geta fengið, þar sem þær hunsa lömbin og vilja ekki sjá þau eða jafnvel reyna að meiða þau.


0809220357181img_0275.jpgÞað er sérkennilegt og forvitnilegt að geta fylgst með hversu sínilegar tilfinningar dýranna geta verið, hjá kindum eru engin leyndarmál og engin ástæða til að bæla niður þarfir. Kindur lifa í einfaldri tilveru en eru þó alls ekki svo ólíkar okkur konunum sem mæður. Kindur eru nefnilega næmar og þegar ég fylgist með hvernig þær vernda lömbin sín þá furða ég mig stundum á því hversu ótrúlegt móðureðlið í þeim er í raun og veru. Það er einstaklega skemmtilegt að sjá hegðun þessara dýra, til dæmis þegar óborin kind kemst í færi við nýfætt lamb þá er eins og eitthvað gerist innra með henni. Kindin vil kara lambið með móðurinni, vera í kringum það og getur jafnvel gengið það langt að vilja hreinlega eiga það.

 

Er þetta að vissu leyti kunnuglegt og hægt að yfirfæra á konur? Í bókstaflegri merkingu nei en oft taka konur upp á því að segja setningar eins og „ég bara verð aðeins að prufa“ um leið og þau taka upp nýfædda barnið sem þeim þykir allt annað en leiðinlegt að halda á. Konur verða líka hræddar ef einhver myndi taka börnin hennar og að mörgu leyti ber ég sem móðir öll sömu grunneinkenni og kind hefur. Það er hreinlega eitthvað stórkostlegt við það að geta fylgst með og tekið þátt í sauðburði á vorin.  Þó að þetta sé tuttugasta og sjöunda árið sem ég tek þátt í sauðburð þá læri ég alltaf eitthvað nýtt um hvernig kindunum líður á vortímanum, eitthvað sem er ómissanlegt og mjög svo lærdómsríkt.


Ég er bara heima að passa.....passa hvern? bara krakkana!

Niðurstöður rannsóknar sem ég heyrði um sýndu að ef karlinn gerði húsverkin samhliða konunni væri kynlíf þeirra virkara. Ég svosem bara kinkaði kolli og gat ýmindað mér að þarna gæti verið margt sannleikskornið, fannst þetta allaveganna ekkert svo ólíklegt. Í útvarpinu nokkru síðar var talar um þessa sömu könnun en útvarpsmanninum Svala fannst þetta allt hið fyndnasta mál og var farið í að reyna ímynda sér að parið þyrfti að gera verkin á sama tíma, nakin! Það var hinsvegar bara grín og það var skírt að þeir skildu hvað væri að tala um, sem var að ef jafnræði ríkti í heimilinu þá væri konan væri frekar til í kynlíf. Síðan hringdu hlustendur inn og einn hlustandi sagði í restina að ef maðurinn hennar hjálpaði henni þá gat hún ýmindað sér að konan væri frekar til í kynlíf,þá væri konan sáttari með sinn mann  og ekki eins þreytt.

Ekkert bogið við þetta ? Ég byrjaði strax svolítið að fnussa þar sem ég sat þarna við aksturinn og sagði upphátt "HJÁLPA konunni", hjálpa henni við húsverkin. Hjálpa, hjálpa, hjálpa ??

Jáá.... ég hef heyrt sjálfa mig segja þetta ,"Æi nennirðu ekki aðeins meira að hjálpa mér hérna heima" 

Þetta eru setningar sem eru ekkert svo óalgengar

50s housewife all mod cons e1262559733537

    "Já vá, ert þú svona duglegur að
    hjálpa til heima við" -
    er gjarnan sagt við og um karlinn sem "hjálpar" konunni
    að þrífa og halda uppi heimili













Konur tóku áður fyrr þátt í auglýsingum sem í dag eru hreint og beint út sjokkerandi, erum við ekki komin lengra í þróuninni ? Það eru enn í dag allt of mörg heimili þar sem konan vinnur jafnt við karlinn utan heimilisins,  en hinsvegar eru skyldur barnanna og heimilisins að mestu enn á henni...það er sorglegt að sjá og það er ekki sanngjart !

delmontead
Þú meinar, að kona geti opnað þetta ?

Það er ennþá allt of mikið stiplað í karla að þegar þeir eru heima með börnin sín á kvöldin þá eru þeir "heima að passa" og þegar þeir þrífa eða laga til þá eru þeir að "hjálpa konunni að þrífa" 

Þessum setningum má útrýma fyrir mér.


Kvenímyndin

Eitt lítið atriði kom fyrir um daginn þegar krakkahópur var að leira og ætlaði að skipta yfir í frjálsan leik. Allir áttu að ganga frá fyrst og gerðu það allir. Síðan þegar ég gaf grænt ljós á að mætti nú yfirgefa borðið, sátu 2 litlar dömur eftir og þegar ég leit við voru þær að hjálpast að, að taka leirdúkinn af borðinu, dustuðu af honum og reyndu að brjóta hann saman, og tóku síðan dúkkurnar sínar og héldu þeim fast að sér og rugguðu því dúkkurnar væru nefnilega skælandi. Ég horfði á þetta og gat ekki séð strákana fyrir mér detta í hug að framkvæma þetta, en afhverju ekki? Það var að myndast heljarinnar pæling og ég þurfi að taka upp lyklaborðið og skrifa.....


Ég heyri oftar en ekki, feministar eru svo ýktir, feministar eru ekkert annað en bitrar rauðsokkur sem hafa ekkert annað við tímann en að "tuða". Því miður hefur feministinn fengið slæma ýmind, líklega vegna æsings en ekki yfirvegaðari hegðun þegar málstaðurinn er kynntur. Líklega vegna þess að viðkomandi er of náin málinu sem hann berst  fyrir. Tilfinningar eru látnar í ljós frekar en baráttan sjálf fyrir sanngjarnari og heilbrigðari kjörum á milli kynjanna. Hvað margir menn hafa hrisst hausinn fyrir framan ykkur og sagt. OH þessir feministar!! - Já, svarið mitt er oft eitthvað á þessa vegu: Já ég skil hvað þú sérð, en þú verður samt að muna hvað þeir eru að reyna að segja. Feministi var upprunalega stofnað til að berjast fyrir bættum kjör konunnar, tækifæri til menntunar , tækifæri til að kjósa, tækifæri til að fá laun greidd og síðar fleiri tækifæri til að fá jöfn laun og kjör eins og hitt kynið fyrir nákvæmlega sömu vinnu. Já þetta hafa allir milljón sinnum heyrt, og jafnréttisstefna er auðvitað málið, auðvitað eru það mannréttindi óháð kynfærum hvað manneskja fær í umbun fyrir vinnu sína. Ég er jafnréttissinni að sjálfsögðu, það eiga ALLIR að vera það, og ég óska þess að það séu það allir í dag. Er ég feminsti? nei ekkert endilega, ég vil berjast fyrir konum og körlum. Ég sé misrétti stundum tengt við karlkynið og stundum konuna.

En það sem fær mig til að velta fyrir mér þessari baráttu er umræða sem ég heyrði fyrir stuttu um að karlinn sé að kynnast nýjum heim núna þar sem hann þarf að koma á móts við konuna sína. Áður fyrr unnu þau bæði,, en konan sá að meirihluta um börnin eftir vinnu og heimilið. Konan bar meiri skyldu gagnvart vinnu sem tengdist heimilinu. Reyndar þegar ég skrifa þetta orð "bar" meiri skyldu þá er það ekki þar með sagt að það sé útdautt, jafnrættinu er ekki fullnægt, enn er prentað í börn sem fæðast í dag að það sé konan sem á að sinna þvottinum, matnum, hreinlætinu, uppeldinu, börnunum og skipulagi innan heimilisins, en þar á milli á konan auðvitað að vera  útivinnandi.

En afhverju er þetta svona, er þetta eðli konunnar að sinna heimili og hafa hreint og hafa áhyggjur af börnunum sem hún fæðir í heiminn og vil sinna þeim frekar en faðirinn? Eðli eða ferli sem hún tengist því hún þarf að sinna því og telur það þannig verða sitt hlutverk í lífinu.

Dóttir mín lagar til í herberginu sínu og hún vill oft fá tusku og hjálpa mér að þrífa og þurrka af, hún sagði meira að segja um daginn þegar hún fékk, já takið eftir fékk að vaska upp, að núna kynni hún þetta og gæti gert þetta alltaf fyrir mig. Það fallegasta við þessa setningu að hún meinti þetta.

Ég heyrði mann segja að mamma hans hafði alltaf beðið hann um að fara út með bræðrum sínum þegar hún ætlaði að laga til svo þeir yrðu hreinlega ekki fyrir henni á meðan þá velti ég því fyrir mér hvað ef ég ætti son, hvernig mundi ég sem móðir hafa skyldur hans gagnvart heimilinu. Ef ég ætti 13 ára son og 13 ára dóttir, og ég mundi vilja biðja annað þeirra að skrúbba baðið og skrúbba salernið. Í hvort þeirra mundi ég hóa? Ég laðaðist að öðru kyninu. Óneitanlega, og  já því miður!

Er karlkynið búið að segja við sjálfan sig að þetta er ekki þeirra hlutverk og það sé merki um veikleika að sjá um þrif og heimilisstörf. Hvaðan koma þessi skilaboð?
Ég sem mamman segji að ég mundi líklega kalla í stúlkuna. Án þess að eiga stúlku né pilt að unglingi þá er ég að ímynda mér hvað ég mundi gera. Koma þessi skilaboð frá móðurinni ?
Eða er móðurin að veikja íminda feministans ómeðvitað.

Mömmur

Uppeldi.
Þetta er yfirleitt fyrsta orðið sem ungabarn lærir að segja, þetta er manneskjan sem kemur einstaklingnum í heiminn með tilheyrandi fyrirhöfn. Hún er líka manneskjan sem sinnir fyrstu grunnþörfunum að mestu. En allt þetta segir lítið. Þegar barnið er orðinn fullburða einstaklingur þá man það ekkert eftir fyrstu erfiðu árunum, árunum sem geta verið að reyna á taugakerfi, líkama, og geðheilsu foreldra.
Mamma mín sinnti mér fyrstu árin ásamt föður mínum á sveitabæ norður í þineyjarsýslu ég man það ekki, en ég man að ég gat alltaf leytað til hennar í vandræðum, þótt það kæmi stundum óþolinmæðis andvarp........ en hún var þarna alltaf.
En núna er komið að mér að ala börnin mín upp og þau eru enn á fyrstu árunum í lífinu sem þarf að hugsa um þau.

HUGSA um, hugsa er gott orð sem tengist uppeldi, því uppeldi að mínu mati er hugsun, gjörsamlega allan sólarhringinn. Þú hugsar hvernig þeim líður í daggæslunni, þú hugsar hvort þeim sé nokkuð kalt, hvort þau sakni þín, hvort þau fái ekki knús og sanngjarna meðferð þegar þau eru ekki með mömmu sína til að gæta sín. Heima við hugsar þú um hvað þú þarft að þvo af fötunum þeirra, hversu mörg aukaföt þurfti fyrir næsta dag í skólanum og hvað er blautt og þarf að þurrka eftir daginn.  Vantar henni knús núna, er hún svöng, nei hún er öruglega þyrst, er barninu kalt, já það er pest að ganga, best að klæða í aukapeysu. Jiii hvað hún hóstar mikið, best að fara á doctor.is og finna alskyns ráð og meðöl sem ég get gefið henni,það er eitt sem ég get ekki gert, að gera ekki neitt!


Að vera til taks þegar á reynir....
Þegar maður minn fór í starfsmannaferð núna fyrir stuttu og ég var ein heima með dæturnar, þá ákvað ég að taka hljóðið af  símanum mínum. Ég vildi sofna snemma og ekki verða vakin og þá fór mamman að hugsa:
Í framtíðinni þegar börnin mín verða stærri og sjálfstæðari get ég ekki sett símann án hjóðs því ég vil að þau gætu leytað til mín í vandræðum. Mömmur gera ekki annað en að hugsa um velferð barna sinna og þau gera allt til að leyta af sanngjarni málamiðlun fyrir alla á heimilinu. 
Einstæðar mæður eiga alla mína aðdáun frá toppi til táar. Og þegar ég var ein á heimilinu í 5 vikur í haust þá grét ég kvíðatárum vegna allar vinnurnar sem ég mundi nú sjá um ein, fer úr húsi hálf átta og kem heim tæplega hálf fimm og þá taka hússtörf við og börnin sem eru nú orðin svo þreytt og pirruð að kvöldmat nei nei, það kemur ekki til greina að elda.."Hérna fáðu þér súrmjólk og cheerios". En ég var sterkari en ég hélt og þetta var minna mál en ég nokkurn tíma hélt. En ég vissi að þetta yrðu ekki bara 5 vikur, heimlisfaðirinn stefndi á nám, 100 % erfitt nám og ekki kom til greina nema að halda vinnunni líka. Hann bætti við sig rúmum 50% af vinnu  á hverjum mánuði og ég bætti við mig nánast öllum verkum heimilins og mál barnanna yrðu nú að mestu að minni ábyrgð.
Nú er haustið liðið og veturinn byrjaður og ég finn að einstæðar mæður , sérstaklega þær sem eru með fleiri en 1 eða 2 börn, þær eiga alla mína aðdáun, hvernig farið þið að þessu? Það kemur auðvitað ekkert annað til greina, og lífið gengur sama hver staðan þín er.
En þegar ég kíkji í spegilinn núna eftir allan daginn í  vinnunni á leikskólanum og eftir að heim kemur og  rugga og hugga þarf þreyttur stelpunum eftir erfiðan daginn, , þá stundum lít ég í spegilinn. Ég er farin að sjá bauga, hrukkur hljóta að fara að myndast, ég er þreytt í augunum og það sem ég sé er.....
Þreytta mamman

Þreytta mamman með streitu  sem hugsar of mikið. En ekkert þó of,þetta er allt sem þarf að hugsa um til að vera góð mamma.....   hugsa....
góða mamman er alltaf til taks, í nótt eftir erfiða síðustu daga með yngri dóttur mína þá skreið sú eldri skælandi upp í rúmið mitt og sagðist "vera að gubba á sig". Hún skældi og var greinilega með háan hita og hóstaði ljótasta hósta sem ég hef heyrt. Maðurinn minn gat ekki sofið fyrir hóstanum í henni og hann hafði sofið mjög lítið síðustu nætur vegna vinnu og skóla. Þarna sat mamman og hugsaði, hvað get ég gert til að öllum líði sem best. Karlinn var þreyttur og þarf svefn, dóttirin er lasin og þarf mömmu sína, ég ég sjálf klofin af þreyttu. Þarna fór mamman líka að hugsa , á sama tíma og hún hélt um stóru stelpuna sína sem leið svo illa,  að mömmur gera ótrúlegustu hluti þrátt fyrir þreytu og sínar eigin þarfir.

Hún mamma mín.
já mamma svaraði alltaf í símann, og kom ef voru vandræði. Ég gleymi því aldrei á unglingsárunum að við fengum bíl í láni hjá einu foreldrinu og gerðum okkur ferð í "bæinn" á rúntinn á Akureyri. Þegar við höfðum lent í árekstri og bíllinn skráður óökuhæfur um miðja nótt á Akureyri, allir í sjokki og grátandi yfir vandræðunum sem við hefðum komið okkur í, var ég ekki lengi að grípa upp símann, hvar kom fyrst upp í hausinn = Hún mamma mín.
Í 100 km fjarlægð þurfti ekki að biðja hana um eitt ne neitt, hún lagði um leið af stað, sótti allar vinkonurnar sem lent höfðu í árekstrinum og skutlaði þeim í þeirra sveitir og keyrði svo heim, við sögðum lítið þessa löngu leið heim, það þurfti ekki, mamma var kannski reið, ég veit það ekki, en hún virtist ekki vera það, hún virtist vera fegin að það var allt í lagi og að ég skildi hringja í sig og hún gæti komið með mig heim þar sem hún vissi ég væri örugg. Ég allaveganna ímindaði mér að hún væri að hugsa það, en Það var allt í lagi með mig, mamma kom....
Sagði ég takk? Ég man það ekki, þurfti það, eða vissi hún hversu mikils virði það væri að geta reytt á hana.

Mömmur eru alveg hreint ótrúlega ótrúlega sterkar og duglegar konur. Og ég kemst að því eftir hvern dag og mánuð og ár sem líða að þessar flottu  konur eiga svo miklu meira en lof skilið, því á erfiðum stundum þá virðast þær alltaf ná í þessa auka orku til að nýta í vandræðum og bjarga öllum málum á ungarlegan og töfrandi hátt. Til dæmis getur koss á bágt læknað mikinn sársauka, þetta eru töfrar sem bara mömmur geta notað í neyð, stórkostlegt...
En þegar ég leit í spegilinn, svo þreytt svo lúin, svo dreymandi um nokkra klukkustunda frí til að geta eytt í sjálfan mig til að líta á stundum ekki jafn lúin út, þá kemur maðurinn minn tekur utan um mig og segir....

" Eigum við ekki að eignast annað barn" ?

er þetta tilviljun....

Ég er við það að fara að stíga í stígvélin og setja á mig vinnuvettlinga og ganga út úr húsi. 
Aðvörun, eldgos, Samstaða...... get ég aðstoðað ykkur!. Ef þörf er á setur maður upp vinnuvettlinga og vinnur fyrir landinu, bókstaflega Ég vil  sjá alla sem einn á alþingi koma saman og aðstoða fólk sem þurfti að yfirgefa heimilin í nótt, aðstoða við dýrin sem eru ein á bæjunum og aðstoða við framkvæmdir á mannvirkjunum á landinu. Já hreinlega bara taka sér "frí" frá alþingisstörfum og gera það sem skiptir máli í dag. Og það sem skiptir máli er fólkið og lífið á Íslandi.

Ég hef fylgst með í allan dag með fréttunum, spennt í fyrsta sinn í 2 ár. Ég bíð eftir næsta fréttatíma. Það er eins og einhver uppgjör sé í gangi, nýtt upphaf, sannleikurinn sé að fá að springa út eftir að hafa legið í dvala í of langan tíma, byrgður inni, fyrirgefning  eða ásættanlegar niðurstöður með von í hjarta um sanngjarnari meðferð fyrir alla.

Kannski er erfitt að sjá hvernig chyanna pipar kemur þessi hugsun minni í framkvæmd. EN þannig var það, ég borðaði sósu í gær með piparnum,hún var sterk og eftir matinn var ég þyrst og ætlaði að hella mér í ískalt glas af vatni úr krananum. Hver kannast ekki við það að vera orðinn það þyrstur að honum er farið að líða illa, munnvikin þornuð og munnvatnið er ekki að ná að fullnægja þorsta tilfinnigunni í munninum. Þegar glasið var komið undir kranann og ekkert vatn kom úr honum var ég ekkert smá hissa, ég gat ekki hugsað mér að drekka neitt annað en vatn og var hin argasta. Það liðu öruglega ekki nema 10 mínútur þangað til það var farið að streyma að fullum krafti íslenska holla vatnið í krananum hjá mér og á meðan ég drakk það fylltist ég svo miklu þakklæti.

Ég veit að margir hafa hrist hausinn þegar sagt er í fréttunum að ísland sé ríkt land, að við eigum svo margt. Ég var þakklát.  Ég veit að í þróunarlöndum þarf að ganga marga marga km eftir drykkjarvatni. Og þegar ég las bókina um örlög Önnu Frank og annara gyðinga í útrýmingabúðunum svokölluðu man ég að einn sem komst lifandi úr búðunum sagði að það versta við dvölina hafi verið þorstinn. Þeir hafi reynt að drekka rigningavatnið en það gerði þá þyrstari. Ég hafði ekki ímindað mér að það gæti mögulega verið það erfiðasta við að vera í búðunum.

Í morgun vakna ég og jökullinn okkar er að bráðna og flóð á Íslandi. Nóg að vatni sem er að valda skaða. Og á milli frásagna um gosið er talað um skýrlsluna um niðurstöðu bankahruns á Íslandi. Fréttirnar voru andstæður, pössuðu ekki saman, voru báðar merkilegar á andstæðu. Ég blótaði því í andskotanum geta alþingismenn ekki svarað spurningunum sem þeir fá, "já sko við gerðum það sem okkur fannst best í stöðunni og fólk kýs þá sem það treysta til að stjórna aðstöðum... en HEYY sjáiði hvað samfylkingin er að gera núna, bla bla bla "  Geturðu ekki svarað því sem maðurinn svaraði í staðin fyrir að benda á aðra. Ég hrökk við þegar útvarpsmaðurinn heyrði til mín og var orðinn hin illasti og sagði spuringuna aftur og aftur og sagði eitthvað á þennan veg: ÞAÐ ER BÚIÐ AÐ UPPLÍSA málið, þið eruð sekir um þetta, þvi geturðu ekki bara SVARAÐ SPURNINGUNNI MINNI" !!!!! hjartað á mér tók alveg kipp , maðurinn var orðinn reiður og sagði þetta eitthvað svo einfaldlega. ÞAÐ ER BÚIÐ AÐ UPPLÍSA MÁLIÐ!!!

það fyndna var að ég man svosem ekki hver spurningin var, en hún beindist að sjálfstæðisflokknum sem ísleningar eru búnir að fyrirgefa og virðast vilja fá þá aftur, við breytumst kannski aldrei, eða hvað?

EN þá kom ELDGOS á Íslandi , um leið og átti að fara að einbeita sér aftur að peningnum, bankahrunina og siðblindunni................. þá gýs aftur á Íslandi, tilviljun?



Ísland er frjálst, meðan sól gyllir haf ?

Þjóðarstolt, hvað er þjóðarstolt, afhverju finnum við fyrir þessu, hvenær og hvað erum við svona stolt af.

Við erum sífellt að biðja um staðfestingu. Staðfestingu og viðurkenningu. Viðurkenningu á því að við séum hérna til og getum hjálpað öðrum, viðurkenningu á því að við séum til í þessum stóra heimi og getum skipt máli.

Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf, er eitthvað til í þessari frægu ljóðlínu?
"Ísland er ekki lítið land, það er stórasta land í heimi." - sagði Dorrit nýja forestafrúin okkar. Ég brosi alltaf þegar þetta er spilað í fjölmiðlum og get svo sannarlega verið sammála henni. Þegar við fengum sjálfstæðið iðaði fjöldinn af montni, sjálftrausti og öryggi um að við værum loks viðurkennd sem sjálfstæð þjóð í þessum heimi. Þetta "stórasta land í heimi" var komið til að vera og ætlaði að, jaaa sigra heiminn?

Við sameinumst þegar vel gengur, en þegar illa gengur hugsar hver um sjálfan sig og eigingirnin blossar upp. Þetta er eitthvað sem er innprentað í marga. " fnuss, ég hugsa um mig sjálf"

Með árunum fer ég að bera meiri virðingu fyrir landinu okkar, sögunni okkar sem er varðveitt vandlega og er mikil. Menningunni okkar sem er sér á báti, gildin sem eru gamaldags og verður vonandi haldið í sem lengst, fólkið sem er duglegt og hraust, og síðast en ekki sýst fallega fallega umhverfið sem verður fallegra og fallegra með hverjum mánuðinum sem maður er á lífi. Það er ástæða fyrir því að Gunnar á Hliðarenda hlýddi ekki skipun um að yfirgefa Island í Njálu.  "Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi."  sagði kappinn og stóð við það.

En það sem mér finnst mest skemmtilegast við Ísland er hversu það kemur manni á óvart.  Ég er ekki hrifin af kuldanum sem er hérna á landinu, en á vissan hátt finnst mér orðið gaman af breytileika veðursins. Fyrir hádegi er sól og eftir hádegi er stórhríð og um kvöldið eru norðurljós í logni og fallegu vetrarveðri. Ég las fréttirnar í dag og fattaði á hversu yndislega miklu ævintýra landi við búum á.

Lögreglan í Þingeyjarsýslum og Umhverfisstofnun hvetja fólk einkum í dreifbýli til þess að hafa allan vara á þegar það er á ferð útivið. Þessi dýr eru stórhættuleg. Þótt þau virðist klunnaleg geta þau hlaupið hraðar en nokkur manneskja, ekki síst ef þau eru hungruð.


Já það er verið að vara fólk við ísbirnum á landinu. Hversu dásamlega klikkað er það að búa á þessu landi.

Ég er að reyna líta björtum augum á fjárhaglega erfiðleika Íslands og segja að sumir hafa mjög gott af henni. Draumur minn um að sjálfsþurftabúskapur sé tekin upp að nýju á auknum stíl kemur upp í hugann Það er aldrei hægt nema að vissu leyti í dag reyndar.
Ég vildi óska að ég kynni hannyrðir og mundi sauma föt á mig og börnin, og gæti ræktað allt mitt grænmeti og búið til ost og átt kú og hænu og kynni á jurtir.  Ég ætti kannski bara að gerast bóndi og taka mig á orðinu. Nei það er auðvelt að keyra bara bílinn í Nettó og KAUPA þetta. En ég væri alveg til í að þetta væri tekið upp í auknum stíl og já jafnvel að fólk gefi bara skít í hvað allt er orðið dýrt og segji "fnuss ég sé bara um mig sjálf" og rækti rabbabara í garðinum og fái sér annaðslagið ókeypis rabbabaragraut í matinn:)


Frá einni sem þykist vilja vera bjartsýnni um kreppuna og sér hvað Ísland er skemmtilegt land stundum:)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband